Hluthafafundur Icelandair Group samþykkti samhljóða nú síðdegis tillögu stjórnar félagsins um hlutafjáraukningu upp á allt að þrjátíu milljarða. Stefnt er að því að hlutafjárútboðinu ljúki í byrjun júlí. Ef allt gengur að óskum segir forstjóri Icelandair að félagið geti lifað með lágmarks starfsemi út þetta ár og jafnvel fram á næsta vor. Rætt verður við Boga Nils Bogason, forstjóra Icelandair, í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Einnig verður rætt við flugfreyjur sem enn eiga eftir að semja við félagið. Þær segja samstöðuna magnaða í kjarabaráttunni.
Í fréttatímanum verður fjallað um fjárhagsvanda sveitarfélaganna og rætt við sveitastjóra í Skaftárhreppi sem segir ekki hægt að bíða aðgerða stjórnvalda. Einnig verður fjallað um rannsóknir á því hvort nýta megi hunda í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og við heimsækjum mjaldrasysturnar í Eyjum sem munu í næsta mánuði flytja í varanleg heimkynni sín í Klettsvík.
Þetta og margt fleira í stútfullum fréttatíma á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis kl. 18:30