Gullinbrú í Grafarvogi verður malbikuð að nýju síðdegis á morgun. Vegkaflinn var fræstur á mánudag þar sem nýlagt malbik á veginum stóðst ekki staðla um viðnám. Fleiri veghlutar á höfuðborgarsvæðinu verða einnig malbikaðir á næstu dögum af sömu sökum. Mikil umræða hefur skapast um hálku á nýlögðum vegköflum eftir að banaslys varð á Vesturlandsvegi á sunnudag.
Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að þegar hafi verið ráðist í „hálkuverjandi aðgerðir“ á Vesturlandsvegi um Kjalarnes, þar sem slysið varð á sunnudag. Malbikið var hitað upp og í það dreift salla. Mælingar eru nú sagðar sýna að viðnámið á vegkaflanum sé viðunandi. Til stendur að malbika veginn að nýju á mánudag og verður hann undir sérstöku eftirliti þangað til.
Viðnámi er einnig ábótavant á öðrum vegum. Þannig verða vegkaflar við Sæbraut nærri Laugarásbíói, á Bústaðavegi við Veðurstofu Íslands og Reykjanesbraut við Vífilsstaði fræstir á morgun og malbikaðir við fyrsta tækifæri, að sögn Vegagerðarinnar.
Hér að neðan má sjá myndir frá Vegagerðinni þar sem umræddir vegkaflar eru merktir inn á kort.


