Xi Jinping, forseti Kína, óskar íslenskum starfsbróður sínum til hamingju með endurkjörið, en Guðni Th. Jóhannesson hlaut yfirburðakosningu um liðna helgi.
Í bréfi sínu til Guðna segir Xi að samband Íslands og Kína hafi styrkst á hinum ýmsu sviðum á undanförnum árum, þökk sé samhentu átaki beggja ríkja. Frá upphafi kórónuveirufaraldursins hafi þau þannig „passað upp á hvort annað,“ eins og Xi orðar það í bréfi sínu sem ríkisfjölmiðillinn Xinhua birtir.
Guðni ritaði Xi til að mynda bréf fyrir hönd Íslendinga í apríl þar sem hann sendi kínversku þjóðinni samúðar- og stuðningskveðjur í baráttu þeirra við veiruna. Xi svaraði bréfi Guðna, þakkaði honum fyrir kveðjuna og vonaðist til þess að alþjóðasamfélagið gæti tekið höndum saman svo að ráða megi niðurlögum farsóttarinnar.
Formlegt stjórnmálasamband Kína og Íslands fagnar 50 ára afmæli á næsta ári og segir Xi að hann sé tilbúinn að vinna með Guðna svo að tvíhliða samband ríkjanna styrkist enn frekar.
Xi hefur verið forseti Kína frá árinu 2012 og hefur sankað að sér valdheimildum í stjórnartíð sinni. Hann er nú talinn einn áhrifamesti leiðtogi alþýðulýðveldisins frá upphafi, til að mynda hefur nafn hans og hugmyndafræði verið færð inn í stjórnarskrá landsins sem er sagður heiður sem aðeins Maó Zedong hafði hlotnast fram að stjórnartíð Xi.
Kínverski kommúnistaflokkurinn felldi úr gildi ákvæði í stjórnarskrá landsins árið 2018 sem takmarkar setu einstaklings á forsetastóli við tvö fimm ára kjörtímabil. Xi mun því geta haldið embætti sínu eins lengi og hann hefur heilsu til.
Sem kunnugt er var Guðni endurkjörinn um liðna helgi með rúmlega 92 prósentum greiddra atkvæða.