Innlent

Breyta upplýsingagjöf eftir skimun

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Víðir Reynisson kynnti breytingarnar á fundi dagsins.
Víðir Reynisson kynnti breytingarnar á fundi dagsins. Vísir/vilhelm

Aðeins þau sem eru smituð við komuna til landsins munu fá tilkynningu frá almannavörnum. Þetta tilkynnti Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Þetta felur í sér breytingu frá fyrirkomulaginu sem verið hefur frá 15. júní, þegar liðkað var fyrir komu ferðamanna, en til þess hafa öll fengið tilkynningu sem farið hafa í skimun á landamærunum.

Víðir segir að breytingin sé fyrst og fremst tilkomnin vegna mikils álags á starfsfólk framlínunnar. Það fái allt að 150 fyrirspurnir á dag frá fólki sem fer í skimun á landamærunum. Til þess að draga úr álaginu mun aðeins fólk sem greinist sýkt á landamærunum fá tilkynningu í símann sinn, en ekki hin.

„Ef ekki er búið að hafa samband innan sólarhrings þá hefur sýnið þitt verið neikvætt,“ segir Víðir og bætir við að þetta fyrirkomulag verði innleitt á laugardag og verið sé að aðlaga kynningarefni að þessu.

Þar að auki stendur til að breyta framsetningu tölfræðiupplýsinga á covid.is. Nú munu nýjar tölur aðeins birtast á þriðjudögum og föstudögum en ekki daglega eins og verið hefur. 

Þar að auki verða jákvæð próf flokkuð í tvennt; annars vegar í innanlandssmit og hins vegar í smit sem greinast á landamærunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×