Öll kennsla í leikskólum og grunnskólum í Reykjavík fellur niður á morgun vegna óveðurs í nótt og fyrramálið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá sviðsstjóra á Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar til skólastjórnenda.
Veðrið á hins vegar að ganga talsvert niður eftir hádegi og gert er ráð fyrir að frístundaheimili verði opin.
Þá verður engin kennsla í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík.
Reikna má með að skólahald í menntaskólum liggi niðri líka. Menntaskólinn í Reykjavík hefur aflýst skólahaldi á morgun.
Allar bókaðar móttökur á starfsstöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins falla niður í fyrramálið. Heilsugæslustöðvar verða opnar á þessum tíma með lágmarksmönnum sem sinnir bráðavandamálum.