Erlent

Kellyanne Conway yfirgefur Hvíta húsið

Sylvía Hall og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Donald Trump og Kellyanne Conway eftir sigur í forsetakosningunum árið 2016.
Donald Trump og Kellyanne Conway eftir sigur í forsetakosningunum árið 2016. Vísir/Getty

Kellyanne Conway, aðalráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, og sú sem einna lengst hefur starfað með forsetanum í Hvíta húsinu, ætlar að láta af störfum fyrir mánaðamót til þess að einbeita sér að uppeldi barna sinna.

Eiginmaður hennar George Conway ætlar sér einnig að hætta afskiptum af stjórnmálum en hann hefur verið einn helsti gagnrýnandi Donalds Trump úr röðum Repúblikana og stofnaði meðal annars hópinn The Lincoln Project, sem samanstendur af hægrisinnuðum Bandaríkjamönnum sem vilja koma forsetanum frá völdum.

Þau eiga börn á unglingsaldri og á aðeins nokkrum klukkustundum áður en Conway tilkynnti um afsögn sína vakti tíst frá dóttur þeirra mikla athygli á Twitter þar sem hún sagði að starf móður hennar hefði eyðilagt líf sitt. Það væri hræðilegt að horfa upp á hana ganga þann veg áfram. Slíkt væri eigingjarnt og snerist aðeins um peninga og frægð.

Conway er á meðal ræðumanna á landsþingi Repúblíkana sem fer fram síðar í vikunni en samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins er óvíst hvort af því verði eftir uppsögn hennar. Dóttir hennar hafði gagnrýnt það á samfélagsmiðlum í vikunni og sagðist vera miður sín vegna þess, en hún hefur verið afar gagnrýnin á forsetann og hans störf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×