Erlent

Breta­drottning verði ekki lengur þjóð­höfðingi Barba­dos

Atli Ísleifsson skrifar
Elísabet II Bretadrottning hefur verið þjóðhöfðingi Barbados allt frá því að landið öðlaðist sjálfstæði árið 1966.
Elísabet II Bretadrottning hefur verið þjóðhöfðingi Barbados allt frá því að landið öðlaðist sjálfstæði árið 1966. AP

Barbados ætti að verða að lýðveldi og hverfa frá nýlendufortíð sinni. Stefnt skuli að því að Elísabet II Bretlandsdrottning verði ekki lengur þjóðhöfðingi Karíbahafsríkisins.

Þetta sagði Sandra Mason, ríkisstjóri Barbabos, í ræðu á þriðjudaginn.

Barbados er fyrrverandi bresk nýlenda sem öðlaðist sjálfstæði árið 1966. Eru íbúarnir um 300 þúsund talsins, en líkt og á við um svo mörg önnur nýlenduríki Breta var málum þannig háttað eftir sjálfstæði að Bretlandsdrottning yrði áfram þjóðhöfðingi.

„Tíminn er kominn til að segja að fullu skilið við sögu okkar sem nýlenda,“ sagði Mason, þar sem hún flutti ræðu fyrir hönd Miu Mottley, forsætisráðherra Barbados. Mottley vann stórsigur í kosningum 2018 og hefur lengið talað fyrir að Barbadosar slíti endanlega þennan streng.

„Barbadosar vilja barb­adoskan þjóðhöfðingja. Þetta er hin endanleg yfirlýsing um sjálftraust okkar þegar kemur að því sem við erum og erum burðug um.“

Því skuli Barbados verða fullvalda og að lýðveldi áður en haldið sé upp á 55 ára afmælis sjálfstæðis landsins í nóvember á næsta ári.

Elísabet drottning er þjóðhöfðingi Bretlands, auk fimmtán fyrrverandi nýlendna þar sem sérstakur ríkisstjóri (e. governor-general) er hennar fulltrúi. Er það í Antígva og Barbúda, Ástralíu, Bahamaeyjum, Barbados, Belís, Granada, Jamaíku, Kanada, Nýja-Sjálandi, Papúa Nýju-Gíneu, Sankti Kitts og Nevis, Sankti Lúsíu, Sankti Vinsent og Grenadíneyjum, Solomoneyjum og Túvalú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×