Valur úr leik í Meistara­deild Evrópu eftir tap í víta­spyrnu­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sandra huggar Örnu Eiríksdóttur sem brenndi af síðustu spyrnu Vals í vítaspyrnukeppninni í dag.
Sandra huggar Örnu Eiríksdóttur sem brenndi af síðustu spyrnu Vals í vítaspyrnukeppninni í dag. Vísir/Vilhelm

Valur er dottið úr leik í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu eftir tap gegn Glasgow Celtic í vítaspyrnukeppni að Hlíðarenda í dag. Liðið sem bæri sigur úr býtum færi áfram í 32-liða úrslit Meistaradeildarinnar, því var ljóst að það var mikið undir.

Glasgow City frá Skotlandi eru ríkjandi Skotlandsmeistarar - og hafa alls unnið deildina 12 ár í röð. Þá hafði liðið unnið alla fjóra leiki sína til þessa á leiktíðinni og fóru í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar í fyrra.

Leikið var í gríðarlegum kulda að Hlíðarenda og eftir jafnan leik frá upphafi til enda var staðan 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja. Þar var ekkert skorað þrátt fyrir yfirburði Vals og því farið í vítaspyrnukeppni. 

Þar reyndust leikmenn Glasgow sterkari og fór það svo að þær skoruðu úr fjórum spyrnum en Valur aðeins þremur. Þar með var ljóst að Valur er úr leik í Meistaradeild Evrópu að þessu sinni.

Leikmenn Glasgow fagna því að vera komnar áfram.Vísir/Vilhelm

Stál í stál

Fyrri hálfleikur leiksins fer ekki í neinar sögubækur en sjá mátti á leik beggja liða hvað var undir. Engar óþarfa áhættur teknar og leikmenn völdu öruggasta kostinn í öllum sínum aðgerðum. Bæði lið spiluðu svipaðan leikstíl og þó að gestirnir hafi verið ívið sterkari var staðan enn markalaus er fyrri hálfleik lauk.

Síðari hálfleikur var ekki gamall þegar gestirnir frá Skotlandi tóku forystuna. Markið kom eftir aukaspyrnu frá hægri kantinum sem send var inn á teig. Svo virtist sem um brot hefði verið að ræða en tveir leikmenn Vals féllu í teignum er boltinn var í loftinu. Hin hávaxna Jenna Clark skallaði boltann fyrir fætur Leanne Crichton sem skoraði með skoti af stuttu færi.

Staðan 0-1 og eftir það lögðust gestirnir til baka ásamt því að tefja við öll tilefni. Þegar rúmar tíu mínútur lifðu leiks fékk Valur horn eftir stórsókn þar sem bjargað var á línu eftir að Lee Alexander – markvörður gestanna – hljóp á Elínu Mettu Jensen og lá óvíg eftir.

Hallbera Guðný Gísladóttir tók hornspyrnu í kjölfarið sem sveif inn að marki. Alexander ætlaði að grípa boltann á nærsvæðinu en missti hann niður í legginn á Mist Edvardsdóttur og þaðan yfir línuna. 

Staðan orðin 1-1 og fleiri urðu mörkin ekki í venjulegum leiktíma. Því þurfti að framlengja á Hlíðarenda.

Valur betri aðilinn í framlengingu leiksins

Það var ekki að sjá á Valsliðinu að það hefði aðeins spilað einn leik undanfarnar 5-6 vikur eða svo. Þær virtust mun orkumeiri en gestirnir frá Skotland og fékk Elín Metta gullið tækifæri til að koma þeim yfir í upphafi framlengingar. 

Hallbera Guðný átti þá frábæra sendingu yfir varnarlínu Glasgow. Elín Metta tímasetti hlaup sitt fullkomlega en önnur snerting hennar sveik hana og markvörður gestanna náði að koma út og handsama knöttinn í þann mund er Elín ætlaði fram hjá henni.

Það var svo undir lok leiks sem atvik átti sér stað sem leiddi til þess að Pétur Pétursson, annars rólegur þjálfari Vals, sagði dómara tríói leiksins til syndanna að leik loknum.

Hlín Eiríksdóttir komst þá ein gegn vinstri bakverði gestanna þegar tvær mínútur voru eftir af framlengingunni. Hlín spændi fram hjá þeirri skosku sem flæktist einhvern í fótum Hlínar og féllu þær báðar til jarðar. Við fyrstu sýn var þetta víti, eftir að sjá endursýninguna var þetta 100 prósent víti en hvorki dómari né aðstoðardómari leiksins - sem var með fullkomna sjónlínu á atvikið - dæmdu neitt.

Svo virtist sem dómari leiksins hafi ekki þorað að dæma en hún hafði flautað á ýmislegt í leiknum fram að þessu. Engin vítaspyrna dæmd, ekkert mark skorað og staðan 1-1 er flautað var til loka framlengingar, sem virtist þó vera góðum 15-20 sekúndum áður en leiktíminn var úti.

Því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar brást Valskonum bogalistin en þær Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, Hallbera Guðný og Arna Eiríksdóttir brenndu allar af vítaspyrnum sínum. Sandra Sigurðardóttir varði tvívegis í markinu en að dugði ekki til.

Sandra gerði sér lítið fyrir og varði tvívegis meistaralega í vítaspyrnukeppninni. Það dugði þó ekki til.Vísir/Vilhelm

Glasgow því áfram í 32-liða úrslitin og Valur situr eftir með sárt ennið.

Allt það helsta úr leik dagsins má sjá hér.

Viðtöl


Tengdar fréttir

Það er smá óbragð í munninum á manni

Hallbera Guðný var frekar ósátt með dómara leiksins sem sleppti augljósu víti undir lok framlengingar ásamt því að leyfa vafasamt mark gestanna er Valur tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Glasgow City í Meistaradeild Evrópu í dag.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira