Litlar og stórar tjöruklessur hafa dreift sér á víð og dreif um þjóðveg 1 undanfarna daga vegna bikblæðinga. Talsvert tjón hefur orðið á bílum sem ekið hefur verið um þjóðveginn í þessu ásigkomulagi, ekki síst stórum flutningabílum.
Framkvæmdastjóri Vörubílastöðvar innar Þróttar segir þrjá bíla frá fyrirtækinu illa leikna eftir akstur með fisk frá Dalvík til Reykjavíkur í gær.
„Þetta er inn í bremsubúnaði. Þetta er ofan á honum. Við sjáum ekki olíutankinn. Þetta er inni í vélarrúmi, þetta er uppi í gírkassa. Þannig að við erum að horfa uppá hellings tjón við að þrífa þetta. Svo vitum við ekki umfangið á tjóninu. Hvort það sé bilun á bremsubúnaði, bilun á skynjurum sem er hellings peningur í,“ segir Stefán Gestsson, framkvæmdastjóri Þróttar.
Stórtjón á Sauðárkróki
Sömu sögu er að segja frá Sauðárkróki þar sem 14 flutningabílar Vörumiðlunar eru illa leiknir eftir að ekið um þjóðveg 1 undanfarna daga.
„Þetta hleðst á raflagnir, þetta hleðst á loftlagnir, það er skelfilegt að eiga við þetta,“ segir Magnús E. Svavarsson, framkvæmdastjóri Vörumiðlunar.
Hann segist hafa látið Vegagerðina vita á sunnudaginn og spyr af hverju ekki hafi verið brugðist fyrr við af hennar hálfu.
„Þess vegna held ég að það hafi verið skynsamlegt að bregðast fyrr við og taka kannsi pínulítið mark á því þegar maður er að hringja inn,“ segir Magnús.
Þeir telja báðir að það skorti svör frá Vegagerðinni um ástæður þessa ástands á þessum langa kafla.
„Við erum að horfa á vegi annars staðar á landinu sem eru í fínu lagi. Nú eru hellings flutningar suður fyrir á firðina. Við erum ekki að sjá þetta þar. Þetta er á þessum kafla frá Vatnsskarði að Staðarskála,“ segir Stefán.
Fyrir utan tjón á vörubílunum og öryggi bílstjóra þeirra varði þetta líka öryggi annarra vegfarenda.
„Þú sérð það alveg.Það er ekki gott að vera á litlum fólksbíl og fá þetta framan á sig. Eða framan á dekkið á einhverjum hraða. Þetta skapar hættu, segir Stefán.“