Fjórar umsóknir bárust um stöðu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en umsóknarfrestur rann út í gær, mánudaginn 30. mars. Þetta kemur fram í frétt á vef stjórnarráðsins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lét af störfum sem lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu þegar hún var skipuð sem ríkislögreglustjóri fyrr í þessum mánuði og hóf hún störf þann 16. mars síðastliðinn.
Sjá einnig: Sigríður Björk skipuð ríkislögreglustjóri
Þau sem sóttu um stöðu lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu eru Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Helgi Valberg Jensson, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og Jón H. B. Snorrason, saksóknari við embætti ríkissaksóknara.