Ákvæði kjarasamninga um veikindi ná til þeirra sem er gert að halda sig heima vegna kórónuveirunnar, að mati lögfræðings Alþýðusambands Íslands. Margar fyrirspurnir hafa borist Sameyki um rétt félagsmanna vegna sóttkvíar.
Þrír Íslendingar hafa greinst með kórónuveiruna sem veldur COVID-19-sjúkdómnum til þessa og hátt í þrjú hundruð manns eru í sóttkví vegna hennar. Sóttvarnalæknir hvetur fólk sem hefur verið á skilgreindum hættusvæðum vegna veirunnar, þar á meðal á Norður-Ítalíu, um að halda sig heima í fjórtán daga eftir að það yfirgefur svæðin.
Magnús Norðdal, deildarstjóri lögfræðideildar Alþýðusambands Íslands, telur að fólk sem þarf að fara í slíka sóttkví eigi veikindarétt, óháð því hvort það veikist sjálft.
„Ef að samkvæmt opinberum fyrirmælum og læknisráði starfsfólki er gert að halda sig heima vegna þess að það sé annað hvort sjúkt eða hugsanlegir smitberar þá sé það veikt í skilningi kjarasamninga,“ segir hann í samtali við Vísi.
Sjá einnig: Spurt og svarað um kórónuveiruna
Í yfirlýsingu sem ASÍ sendi frá sér í dag kemur fram að miðstjórn þess ætli að fjalla um stöðuna og viðbrögð við henni á fundi á miðvikudag. Sambandið telji að forföll vegna sóttkvíar séu greiðsluskyld samkvæmt ákvæðum kjarasamninga og laga.
Sami skilningur ríkir hjá Sameyki, stærsta stéttarfélaginu innan vébanda BSRB, að sögn Írisar Gefnardóttur, verkefnastjóra félagsins. Það hafi fengið fjölda fyrirspurna frá félagsmönnum um rétt þeirra í tengslum við sóttkví.
„Það er okkur skilningur að þú eigir rétt á veikindadögum greiddum á meðan þú þarft að vera heima í sóttkví. Ef þú klárar veikindaréttinn hjá vinnuveitanda þá er náttúrulega sjúkrasjóður hér,“ segir Íris.