Einn umferðarmesti flöskuháls þjóðvegakerfisins, kafli Vesturlandsvegar um Mosfellsbæ, heyrir brátt sögunni til en lægsta tilboð sem barst Vegagerðinni í endurbætur í dag reyndist aðeins sjötíu prósent af kostnaðaráætlun. Bæjarstjóri Mosfellsbæjar segir þetta mikið fagnaðarefni og löngu tímabært að losna við þennan hættulega kafla. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Kafli Vesturlandsvegar við Lágafell í Mosfellsbæ, milli Skarhólabrautar og Langatanga, er aðeins þriggja akreina og ekkert vegrið sem skilur á milli akstursstefna. Núna er komið að því að bæta úr en tilboð í breikkun vegarins í fjórar akreinar voru opnuð hjá Vegagerðinni í dag.
Nánar um verkið hér: Breikkun í Mosfellsbæ boðin út og á að klárast fyrir jólin

Athygli vekur að öll tilboðin fjögur voru vel undir 706 milljóna króna áætluðum verktakakostnaði. Það lægsta átti Loftorka, upp á 490 milljónir króna, eða 69,5 prósent af áætlun en einnig buðu í verkið Grafa og grjót, Ístak og Háfell.
Bæjarstjóri þeirra Mosfellinga segir bæjarbúa fagna enda hafi menn beðið eftir þessu í mörg ár og lengi þrýst á endurbætur.

„Þetta er náttúrlega einn umferðarmesti þjóðvegur landsins sem fer hérna í gegnum Mosfellsbæ,“ segir Haraldur Sverrisson.
„Hann er 2+1 vegur í dag og ekki með aðskildum akreinum. Þannig að hann hefur bæði verið mikill flöskuháls varðandi umferðina hér í gegn, sérstaklega þegar hún er mikil á föstudags eftirmiðdögum, sunnudögum líka, og svo bara gegnumsneitt svo sem orðið.
Og svo er þetta líka bara hættulegur vegur og alls ekki miðaður við nútíma staðla."

„Þannig að þetta er löngu tímabær framkvæmd og mikið fagnaðarefni,“ segir bæjarstjóri Mosfellsbæjar.
Verkið á að vinna rösklega því samkvæmt útboðslýsingu skal því að fullu lokið vel fyrir næstu jól, eigi síðar en 1. desember.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: