Katrín er með nokkra hesta í hesthúsahverfinu í Þorlákshöfn en hún fer í hesthúsið á hverjum degi, oft tvisvar á dag, auk þess sem hún er dugleg að ríða út. Hún fer þó aldrei í hesthúsið eða á bak án þess að vera búin að varalita sig en hún er með spegil og varalit í hesthúsinu hafi hún gleymt að varalita sig áður en hún mætti þangað eða sé hún ekki nægilega vel varalituð.
„Ég fer alltaf varalituð í hesthúsið og á hestbak og svo verður maður náttúrulega að hafa spegil í fullri stærð til að geta skoðað sig, hvort þetta sé boðlegt. Þetta er skemmtilegt, ég skemmti mér eiginlega hvergi betur en hérna út í hesthúsi,“ segir Katrín og hlær.

Katrín hefur unnið til fjölmargra verðlauna í hestamennsku á allskonar mótum í gegnum árin hennar enda er kaffistofan hennar í hesthúsinu meira og minna full af verðlaunagripum. Flest verðlaunin hefur hún unnið á gæðingnum sínum Háfeta, sem er 16 vetra og mjög faxprúður.
„Við erum náttúrlega ekkert í fínu flokkunum, það er ekki svoleiðis, enda er ég orðinn svo gömul, hvað heldur þú að ég geti verið að keppa við þessa gæja, ég gerði það einu sinni. Nei, nei, ég er ekkert gömul, ég segi allavega að það sé engin eldri en hann vill verða, svoleiðis er nú á það. Á meðan ég hef gaman af þessu og get þetta, þá geri ég þetta,“ segir Katrín enn fremur.
