„Mælingar hingað til gefa engar vísbendingar um kvikuinnskot í þessari hrinu en sérfræðingar Veðurstofunnar munu halda áfram að mæla gasútstreymi á svæðinu, en ummerki um kvikugös, ef einhver væru, gætu sést í gasmælingum,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Sérfræðingar Veðurstofu Íslands hafa síðustu daga farið um svæði eins og Krýsuvík, Svartsengi og Eldvörp. Í Svartsengi hittum við á þær Melissu Anne Pfeffer, sérfræðing á sviði ösku- og efnadreifingar, og Söru Barsotti, fagstjóra eldfjallavár. Þær voru meðal annars að mæla hvort útstreymi radon-gass hefði aukist sem og hvort hitastig hefði hækkað.
„Við sáum engar breytingar núna með þessum mælingum,“ sagði Melissa Anne Pfeffer, í viðtali í fréttum Stöðvar 2 á miðvikudag, eftir fyrstu stóru skjálftana. Hún sagði að mælingar á radon-gasi væru síðan bornar saman við jarðskjálfta og hreyfingar jarðskorpunnar sem mælast á gps-tækjum.

„Það er erfitt að segja núna hvort þetta er kvika eða ekki. Við þurfum meiri gögn,“ sagði Sara Barsotti í viðtalinu á miðvikudag.
„Það tekur tíma fyrir gas frá kviku til að koma upp. En við sjáum ekkert skrýtið núna hér,“ sagði Melissa.
Hér má sjá vísindamennina að störfum: