Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra eftir ríkisstjórnarfund í morgun. Ríkisstjórnin fór á fundinum yfir tillögur sóttvarnalæknis um áframhaldandi samkomutakmarkanir innanlands.
Svandís sagði að tillögurnar tækju gildi 18. mars og yrðu í gildi í þrjár vikur, eða til 9. apríl. Breytingarnar með nýju reglugerðinni væru óverulegar. Aðallega væri verið að skerpa á ákveðnum ráðstöfunum í kringum hlé á tónleikum og í leikhúsi.
„Þannig að það eru í sjálfu sér engar breytingar sem fólk mun finna fyrir,“ sagði Svandís.
Tillögur að breytingum sem sóttvarnalæknir er með í smíðum um fyrirkomulag á landamærum eru ekki hluti af reglugerðinni sem tekur gildi á morgun, að sögn Svandísar. Tillögurnar snúa til dæmis að því að börn fari í sýnatöku við komuna til landsins og aukna notkun á farsóttarhúsi. Svandís sagði að farið yrði yfir þessar tillögur á ráðherrafundi.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að ný reglugerð tæki gildi á morgun, 17. mars. Hið rétta er að þær taka gildi 18. mars. Þetta hefur verið leiðrétt.