Lónið sem nefnist Sky lagoon stendur yst á Kársnesi. Mikið hefur verið lagt í verkið og svokallaðar klömbruhleðslur prýða bygginguna. Framkvæmdin hófst í byrjun síðasta árs og er metin á um fimm milljarða króna.

„Og þar með stærsta fjárfesting í afþreyingarupplifun á höfuðborgarsvæðinu, þannig að við erum mjög spennt fyrir framtíðinni,“ segir Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky lagoon, en fyrirtækið Nature Resort stendur að baki framkvæmdinni auk erlendra fjárfesta.
Klettar umvefja lónið og þegar komið er út úr helli við innganginn blasir við laug með sjávarútsýni.
„Þetta er mjög flókin framkvæmd. Hér er 3.200 fermetra bygging og þar með talið 600 fermetra tæknirými, þannig þetta er mjög flókið en er búið að ganga vel og það eru margir sem hafa þurft að koma að þessu til þess að þetta gangi allt saman upp.“

Ýmsar nýjungar eru í heilsulind lónsins. Regndropar falla á gesti í einu rýminu og í gufubaðinu er víst stærsta rúða landsins sem vegur um 2,2 tonn.
Verðið í lónið er á bilinu um sex til tíu þúsund krónur á tilboði.
Hvað skýrir þetta verð?
„Framkvæmdin og fjárfestingarkostnaður gerir það. Og það er mikill kostnaður á bak við það að búa þetta allt saman til, en við ætlum að gera vel í þjónustu og öðru,“ segir Dagný.

Starfsmenn eru þegar orðnir sextíu en gert er ráð fyrir að þeir verði 110 þegar starfsemin eykst með ferðamannastraumi. Hún segist bjarstýn þrátt fyrir opnun í miðjum heimsfaraldri.
„Við erum að vonast til þess að það séu bjartir dagar framundan. Við ætlum bara að fara rólega af stað og erum fegin að gera það næstu tvo mánuði eða svo og bjóða heimamenn bara velkomna,“ segir Dagný.