Innlent

Ölvun og ofsaakstur í aðdraganda banaslyss

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá vettvangi slyssins þann 23. júlí í fyrra.
Frá vettvangi slyssins þann 23. júlí í fyrra. Rannsóknarnefnd samgönguslysa

Karlmaður á fimmtugsaldri sem lést í banaslys á Norðausturvegi á Norðurlandi eystra í júlí í fyrra var undir áhrifum áfengis, ekki í bílbelti og ók á allt að 160 kílómetra hraða á klukkustund. Þetta er niðurstaða Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem ítrekar fyrri ábendingar um ökumenn setjist aldrei undir stýri eftir að hafa neytt áfengis.

Það var að kvöldi 23. júlí sem Misubishi Outlander fólksbifreið var ekið á ofsahraða norður Norðausturveg. Rétt sunnan við vegamótin við Hófaskarðsleið missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni í mjúkri vinstri beygju með þeim afleiðingum að bifreiðin fór út af veginum hægra megin og valt nokkrar veltur.

Ökumaðurinn, sem var einn í bifreiðinni, var ekki spenntur í öryggisbelti og kastaðist hann út úr bifreiðinni. Hann lést af völdum áverka sem af slysinu hlutust.

Glæfraakstur tilkynntur

Engin vitni voru að slysinu en ökumaðurinn hafði skömmu fyrir slysið tekið á mikilli ferð fram úr annarri bifreið. Farþegi í þeirri bifreið tilkynnti glæfraakstur til lögreglunnar skömmu áður en bifreiðin sem hann var í kom að slysinu. Veður var þungbúið og það rigndi þetta kvöld.

Bifreiðin var skoðuð eftir slysið. Hún var útbúin hálfslitnum ónegldum vetrarhjólbörðum en ekkert kom fram í skoðun sem gæti skýrt orsök slyssins. Hámarkshraði á veginum er 90 km/klst við bestu aðstæður en hraðaútreikningar rannsóknarnefndar benda til þess að ökuhraðinn hafi verið yfir 160 km/klst rétt fyrir slysið.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa segir ofan hraðan vera eina af algengustu ástæðum banaslysa í umferðinni og ítrekar nefndin mikilvægi þess að ökumenn aki ekki hraðar en hámarkshraði og aðstæður leyfa hverju sinni.

Of margir spenni ekki beltin

„Undanfarin ár hefur akstur undir áhrifum áfengis verið algeng orsök banaslysa í umferðinni. Eins og alþekkt er hafa vímuefni áhrif á dómgreind neytenda og skynjun umhverfis. Áfengismagn í blóði þarf ekki að vera mikið til að áhrifin skerði einbeitingu hins ölvaða, sjónsvið minnkar og fjarlægðarskyn versnar. Eftir því sem ölvun eykst, lengist viðbragðstími og hreyfistjórnun og rökvísi skerðast,“ segir í skýrslunni.

„Rannsóknarnefnd samgönguslysa ítrekar fyrri ábendingar um akstur undir áhrifum áfengis. Að mati nefndarinnar er nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum áfram á framfæri við ökumenn að þeir aki ekki undir neinum kringumstæðum eftir að hafa neytt áfengis.“

Sömuleiðis séu vanhöld á notkun öryggisbelta ein af helstu orsökum banaslysa í umferðinni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×