Erlent

ESB opnar landamærin fyrir bólusettum

Samúel Karl Ólason skrifar
Starfsmenn í ferðaþjónustu undirbúa baðstrendur í Frakklandi.
Starfsmenn í ferðaþjónustu undirbúa baðstrendur í Frakklandi. EPA/SEBASTIEN NOGIER

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur tekið þá ákvörðun að opna landamæri ríkjasambandsins fyrir ferðamönnum sem hafa verið bólusettir að fullu. Þessi ákvörðun var tekin í morgun en hefur ekki verið tilkynnt opinberlega þar sem ákvörðunin hefur ekki verið staðfest af erindrekum aðildarríkja ESB.

AFP fréttaveitan hefur þó eftir heimildarmönnum sínum að breytingarnar verði að öllum líkindum staðfestar.

Einnig stendur til að taka við ferðamönnum frá ríkjum þar sem færri en 75 af hverjum hundrað þúsund íbúum eru smitaðir.

Ekki liggur fyrir hvenær breytingin mun taka gildi. Forsvarsmenn hvers aðildarríkis fyrir sig eru sagðir eiga að taka ákvörðun um hvaða sönnun ferðalangar þurfa að færa fyrir því að þau hafi verið bólusett.

Umræddir ferðalangar þyrftu þó að sanna að þeir hefðu verið bólusettir með bóluefni sem hefur fengið heimild til notkunar í sambandinu. Bóluefni frá Rússlandi og Kína hafa ekki fengið þá heimild.

Takmarkanir hafa verið á ferðalögum til Evrópusambandsins í rúmt ár en samkvæmt núgildandi reglum er ferðalöngum frá einungis sjö ríkjum í heiminum heimilt að ferðast til aðildarríkja.

Ráðamenn í ríkjum eins og Frakklandi og á Spáni höfðu þegar tilkynnt að til stæði að taka við bólusettum ferðamönnum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×