„Þetta var tæknilegt vandamál og engin raunveruleg hætta var á ferðum,“ sagði aðstoðarmaður Harris í samtali við CNN í dag. Hann vildi þó ekki segja meira um málið við fjölmiðla.
CNN greinir þó frá því að óvenjulegt hljóð hafi komið úr lendingarbúnaði vélarinnar þegar hún var að taka á loft. Þó hafi lendingin verið alveg eðlileg eftir að henni var snúið við.
„Eru allir góðir?“ spurði Harris fréttamenn á flugvellinum eftir lendinguna. „Það er allt í góðu með mig, það er allt í góðu með mig. Við báðum stutta bæn en það er allt í lagi með okkur.“
Harris mun fara með annarri vél til Gvatemala í dag. Hún verður í Gvatemala og Mexíkó næstu vikuna í opinberri heimsókn.