Hanna Björg segir í færslu á Facebook að hún sé fús, viljug og áhugasöm um að leiða kennarastéttina næstu fjögur árin veiti kennarar landsins henni traust til þess.
Hún hefur vakið mikla athygli undanfarið fyrir baráttu sína fyrir þolendur kynferðisofbeldis, sér í lagi í tengslum við ásakanir á hendur knattspyrnuhreyfingunni.
Hún segist hafa starfað með forystu framhaldsskólakennara lengur en hún man og að sú reynsla muni nýtast henni vel í starfi formanns Kennarasambandins.
„Allir kennarar á öllum skólastigum eru mikilvægir og ég mun sannarlega gera mér far um að vera málsvari allra,“ segir Hanna Björg.
Hún segist hafa haft áhuga og metnað fyrir bæði menntun í landinu og kjaramálum kennarastéttarinnar allt frá því að hún hóf störf sem kennari.
„Grundvöllur kraftmikillar kjarabaráttu er sterk sjálfsmynd stéttarinnar og rík fagvitund,“ segir hún.
Að lokum segir Hanna Björg að kennarastarfið sé mikilvægasta starfið.