Hann sagði aðgerðarleysi ekki koma til greina og það myndi leiða til gífurlegrar reiði um heim allan.
Johnson nefndi að hann hefði verið á loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn fyrir ellefu árum og í París fyrir sex árum. Hann sagði að öll loforðin sem hefðu verið veitt hingað til myndu ekkert þýða án aðgerða nú því annars yrði reiðin óviðráðanleg.
Hann sagði einnig að hægt væri að grípa til aðgerða. Tæknin til að aftengja dómsdagstækið væri til staðar. Það yrði þó aldrei gert allt í einu og tæki tíma.
COP26 var sett í gær en ráðstefnan mun standa yfir næstu tvær vikur. Þar munu fulltrúar næstum tvö hundruð ríkja reyna að ná samkomulagi um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda og stemma stigum við áhrifum af hnattrænni hlýnun.
Sjá einnig: COP26 sett í Glasgow - „Okkar síðasta og besta von“
Vonast er til þess að á COP26 verði samþykktar leiðir til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins frá 2015. Það er að takmarka hnattræna hlýnun við tvær gráður og helst eina og hálfa.
Lengi hefur verið deilt um það hvaða ríki eigi að taka mestan samdrátt á sig.
Snauðari ríki, sem hafa sögulega séð átt hlutfallslega lítinn þátt í að dæla gróðurhúsalofttegundum út í lofthjúp jarðar en gætu fengið einna verst að kenna á afleiðingunum, vilja að ríku þjóðirnar sem bera ábyrgð á meirihluta þeirrar losunar sem hefur átt sér stað taki á sig mestu kvaðirnar.
António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í ræðu sinni að fátækari ríki heimsins þurfi meiri aðstoð frá auðugum ríkjum. Bæði hvað varðar umhverfisvernd og viðbrögð við Covid-19.
Hann sagði jörðina vera að tala við fólkið og það þyrfti að hlusta á hana. Það þyrfti að grípa til aðgerða til að bjarga framtíð mannsins.
'Chose ambition, solidarity, chose to safeguard our future and save humanity', says UN Secretary General António Guterres, at the opening ceremony of #COP26.
— Sky News (@SkyNews) November 1, 2021
Follow live: https://t.co/XtG4l9UAZu pic.twitter.com/7cvWtk8Gzp