Í svari frá Umhverfisstofnun segir að farið verði yfir innkomnar athugasemdir eftir að auglýsingatímanum lýkur og afstaða tekin til þeirra. Ákvörðun um útgáfu starsleyfis verði síðan tekin innan fjögura vikna frá lok auglýsingatíma, eftir því sem segir í svari UST.
Þar segir jafnframt að Ísteka sæki um starfsleyfi fyrir núverandi lyfjaverksmiðju fyrirtækisins við Grensásveg. Tillagan sem UST auglýsir gerir ráð fyrir „að heimilt verði að framleiða allt að 20 kg/ári af lyfjaefni (afurð) úr allt að 600 tonnum af blóði hryssa.“
Þetta kemur einnig fram í greinargerð fyrirtækisins sem fylgir tilkynningu til Skipulagsstofnunar vegna framtíðar stækkunar eins og greint var frá í frétt í Kjarnanum í maí.
Engin konkret plön
Ísteka framleiðir sem stendur 10 kíló af frjósemislyfinu eCG og væri þetta því tvöföldun á starfseminni. Blóðmerar í stóðum á 119 búum á landinu, einkum á Suður – og Norðurlandi, eru rúmlega 5000 talsins og yrði að fjölga þeim verulega. Þegar fréttastofa Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis óskaði eftir staðfestingu á þessum fyrirætlunum frá Arnþóri Guðlaugssyni, framkvæmdastjóra Ísteka, þann 26. nóvember síðastliðinn var dregið heldur í land.
„Ísteka hefur verið í hægum en jöfnum vaxtarfasa seinustu ár og tekið var tillit til þess að sú þróun kynni að halda áfram við vinnu við starfsleyfi þótt ekki liggi fyrir nein konkret plön um stækkun,“ segir í svari Arnþórs.
Pósturinn var sendur í tilefni af spurningum fréttastofu eftir að alþjóðlegu dýraverndarsamtökin AWF/TSB höfðu birt myndband um kaldranalega meðferð hryssa við blóðtöku og meint dýraníð sem Matvælastofnun hefur nú til rannsóknar.
„Útflutningstekjur sem eru til komnar af sölu á fullunninni vöru Ísteka eru tæpir tveir milljarðar króna á ársgrundvelli,“ kemur fram í tölvupóstinum frá framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Vöxtur Ísteka hefur verið stórfelldur síðustu ár og hefur afkoman ríflega sjöfaldast á fjórum árum, eins og segir í frétt Viðskiptablaðsins.
Vísir fjallaði um það fyrir skemmstu að Ísteka ætti sjálft hundruð blóðmera og í frétt Bændablaðsins segir að fyrirtækið sé umfangsmesti hestaeigandi landsins.
Tillaga um starfsleyfi til útvíkkunar starfseminnar ásamt umsókn rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar til og með 22. desember, eins og fyrr segir.