Skólastarf hefur víða raskast fyrstu tvær vikur ársins vegna kórónuveirufaraldursins. Fjöldi nemenda hefur lent í sóttkví eða einangrun vegna veirunnar og það sama á við um starfsfólk skólanna.
Til að mynda var fjórðungur nema í Árbæjarskóla heima í dag. Þar stóðu skólastjórnendur í ströngu síðdegis þegar einn nemandi skólans greindist með kórónuveiruna. Skólastjórnendur sjá um að rekja smit sem upp koma hjá nemendum skólanna og finna út hverjir þurfa að fara í sóttkví. Frá því í haust hafa skólastjórnendur Árbæjarskóla tuttugu og sex sinnum þurft að rekja smit.
„Við finnum alveg að róðurinn er að þyngjast núna og það er talsvert um smitrakningar,“ segir Guðlaug Sturlaugsdóttir skólastjóri í Árbæjarskóla.
Fimm sinnum þurft að rekja smit á einni viku
Á aðeins um viku hefur fimm sinnum þurft að rekja smit hjá nemanda skólans.
„Þetta er svolítið tímafrekt vegna þess að við þurfum náttúrulega leggjast yfir það hvar börnin hafa verið þennan daginn og hjá hverjum þau hafa verið að sitja og með hverjum þau hafa verið að leika ef þau hafa verið í einhverjum leik, leiklist eða íþróttum eða hvar svo sem þau hafa verið í húsinu. Þannig að við þurfum að tala oft við mjög marga kennara.“
Þá fá skólastjórnendur oft tilkynningar um að nemendur séu smitaðir síðdegis, á kvöldin eða um helgar.
„Þetta er yfirleitt alltaf fyrir utan skólatíma. Við vorum til dæmis að rekja síðasta laugardag og sunnudag og í gær og fyrrakvöld og erum að rekja aftur í dag. Þannig að þetta tekur tíma og ég finn alveg núna að þetta er farið að taka í og ég er orðin svolítið leið yfir þessu hvað þetta tekur mikinn tíma vegna þess að mér finnst þetta bitna orðið á faglega starfinu og svona okkur sem faglegum forystumönnum í skólunum.“
Nýjar sóttvarnaaðgerðir sem kynntar voru í dag gera ráð fyrir óbreyttu skólastarfi. Guðlaug segir að hún vilji gjarna að skipulögðu starfi barna sé haldið úti.
„Þetta leggst bara ágætlega í mig þannig skilurðu. Við viljum náttúrulega hafa sem mesta reglu fyrir börnin og það sem hefur verið er að hérna börnin hafa ekki verið svo mikið að smita kennarana en það hefur komið fyrir hjá okkur að kennarar hafa smitað börn en hérna þetta hefur gengið ágætlega í raun og veru hjá okkur.“