Hættustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Patreksfirði og óvissustig er í gildi á Vestfjörðum öllum. Við fjöllum um málið í kvöldfréttum og heyrum í bæjarstjóra Vesturbyggðar um stöðuna.
Óraunhæfar kröfur eru gerðar til skúringarfólks sem brjóta í bága við vinnuverndarlöggjöf. Til að ná því sem er skilgreint sem „frábær árangur“ í starfi á einum degi er ætlast til vinnuálags sem samræmist því að hlaupa næstum tvö maraþon. Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum.
Við förum einnig yfir fjörugar umræður í Pallborði dagsins þar sem formannsefni Eflingar tókust á. Sólveig Anna Jónsdóttir segist bjóða sig fram á ný vegna fjölda áskoranna jafnvel þótt það gæti kostað átök.
Þá verðum við í beinni útsendingu frá Alþingi þar sem formaður Flokks fólksins gagnrýnir harðlega seinagang við meðferð frumvarps um bann við blóðmerarhaldi, ræðum við ráðherra um endurskoðun á umsvifum Ríkisútvarpsins og kíkjum á kattakaffihúsið – þar sem fólk botnar ekkert í andstöðu landsmanna við gæludýrum á veitingastöðum.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan 18:30.