Hinn 32 ára gamli Bale hefur verið kómísk fígúra undanfarin misseri og löngu ljóst að forráðamenn Real vilja ekkert með hann hafa. Þrátt fyrir að hafa byrjað feril sinn í Madríd nokkuð vel – og skorað nokkur stórglæsileg mörk – þá er samband vængmannsins frá Wales við félag sitt orðið heldur súrt.
Það á bæði við um forráðamenn Real sem og stuðningsfólk félagsins.
Bale var nálægt því að fara til Kína sumarið 2019 en ekkert varð af því. Hann var svo lánaður til Tottenham Hotspur haustið 2020 og átti þar að finna gleðina eftir að hafa leikið með liðinu frá 2007 til 2013.
Það gekk ágætlega hjá Tottenham en ákveðið var að kaupa Bale ekki til baka. Aftur fór hann því til Madrídar þar sem hann er enn. Í sumar verður hann hins vegar laus allra mála en nú hefur landsliðsþjálfari Wales gefið til kynna að Bale gæti verið á leið heim.
Robert Page var í viðtali hjá breska ríkisútvarpinu þar sem hann sagði að vistaskiptin væru ekki alvitlaus. Talið er að Bale bíði þangað til það er ljóst hvort Wales komist á HM í Katar með að ákveða framtíð sína.
Það hefur verið talað um að vængmaðurinn öflugi hafi mögulega íhuga að leggja skóna á hilluna. Ef ekki þá er eflaust urmull liða í Bandaríkjunum tilbúin að fá hann í sínar raðir.
Og svo er það Cardiff City í ensku B-deildinni þar sem mánaðarlaun alls leikmannahópsins náði ekki upp í þau rúmlegu 600 þúsund pund sem Bale var á hjá Real Madríd.
Cardiff City endaði í 18. sæti ensku B-deildarinnar á síðustu leiktíð.
Championship-deildin er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. EFL Championship er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.