Fasteignamat ársins 2023 var birt í dag en heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9 prósent frá yfirstandandi ári og verður 12.627 milljarðar króna. Fasteignamatið hækkar mest á Suðurlandi eða um 22,4 prósent en minnst á Austurlandi eða um 14,9 prósent . Á höfuðborgarsvæðinu hækkar það um 20,2 prósent.
Af einstaka sveitarfélögunum hækkar fasteignamat mest í Hveragerði, Árborg og Skorradalshreppi en þar er hækkunin um og yfir þrjátíu prósent. Minnst er hækkunin í Dalvíkurbyggð, Dalabyggð og Skútustaðahreppi.
Þá hækkar fasteignamat sumarhúsa um rúm tuttugu prósent og atvinnuhúsnæðis um tíu prósent.
Hækkun á fasteignamati nú er sú mesta frá hruni. Á grundvelli þessa fasteignamats eiga svo sveitarfélögin eftir að taka ákvörðun um fasteignagjöld í haust. Þannig geta þessar hækkanir á fasteignamati haft áhrif á það hvað fólk greiðir í fasteignagjöld á næsta ári.
„Það er í rauninni sveitarfélögunum í sjálfsvald sett hvernig þau leggja á fasteignaskattana að einhverju leyti. Þannig það er á þeirra ábyrgð að þessi gríðarlega hækkun fasteignamats verði ekki til þess að rýra kjör almennings þegar kemur að hækkun fasteignaskattanna,“ segir Drífa Snædal forseti Alþýðusambands Íslands.
Hún segir hækkanirnar geta haft áhrif á komandi kjaraviðræður.
„Við erum í dýrtíð. Það eru að hækka öll aðföng, matvæli, vextir eru að hækka og verðbólga er farin að stað. Þannig að auðvitað eru heimilin á Íslandi að taka töluverðan skell akkúrat núna. Auðvitað mun þetta líka hafa áhrif á kjarasamningsviðræðurnar í haust þar sem við erum að verja lífskjör almennings og sækja fram.“