Kafbátaleitaræfingin Dynamic Mongoose fer fram á tveggja ára fresti og hefur verið haldin síðan 2012. Ísland og Noregur skiptast á að vera gistiríki hennar en Noregur gegnir því hlutverki að þessu sinni. Bein þátttaka Íslands í æfingunni er því takmörkuð þetta árið.

Sex skip úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins hafa þó verið við landið undanfarna daga til að stilla saman strengi fyrir æfinguna og sinna lokaundirbúningi. Skipin, sem eru frá Frakklandi, Þýskalandi, Noregi, Kanada, Bretlandi og Bandaríkjunum, munu halda til æfingasvæðisins í Noregshafi síðar í dag. Æfingin mun standa yfir til 24. júní næstkomandi.
„Markmiðið fyrir þau skip sem ég stjórna er að æfa og verða betri í kafbátahernaði. Nú, þegar svona mörg skip, þyrlur og herþotur eru saman komin þurfum við sem sameinað lið að auka getu okkar og viðbragðshæfni í kafbátaaðgerðum,“ sagði sjóliðsforinginn Ad van de Sande á blaðamannafundi í einu herskipanna í morgun.