Í Kópavogi, Garðabæ, Reykjanesbæ, Reykjavík, á Akureyri, Seltjarnarnesi, Akranesi og í Ölfusi eru nokkrir af hæst launuðu bæjarstjórum landsins, eftir því sem fréttastofa kemst næst.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs er þarna efst með rúmar 2,5 milljónir á mánuði - og Almar Guðmundsson í Garðabæ fylgir fast á hæla hennar með rétt um 2,5 milljónir. Þau, auk bæjarstjóra Reykjanesbæjar, eru bæði launahærri en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur sem er með 2,3 milljónir á mánuði. Þess má jafnframt geta að ofan á laun allra bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu leggjast greiðslur fyrir setu í stjórn Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu.
En hvernig skiptast launin miðað við íbúafjölda? Elliði Vignisson í Ölfusi er dýrasti bæjarstjórinn af þeim átta sem hér eru teknir fyrir; launakostnaður deilt á íbúa er 868 krónur. Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness er næstdýrastur, 463 krónur á íbúa. Reykvíkingar sleppa best, Dagur kostar 17 krónur á haus - um fimmtíufalt minna en í Ölfusi.

Há laun bæjarstjóra sem ganga nú hver á fætur öðrum frá ráðningarsamningum hafa verið gagnrýnd síðustu daga, einkum úr röðum minnihluta og þar á meðal á Seltjarnarnesi þar sem minnihlutinn lagði til í vikunni að laun bæjarstjóra yrðu lækkuð um 500 þúsund krónur.
„Okkur finnst laun bæjarstjóra í svo litlu bæjarfélagi vera alltof há og okkur finnst að við þurfum að fá einhverja almennilega umræðu um það í hverju slík laun felast. Og af hverju erum við að greiða laun upp á yfir tvær milljónir í svo litlu bæjarfélagi,“ segir Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra á Seltjarnarnesi.
Aldís Hafsteinsdóttir stjórnarformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga - og sveitarstjóri - sagðist í dag efast um að minnihlutar hefðu frammi sama málflutning sætu þeir á valdastóli. Sigurþóra hafnar þessu.
„Við vorum alltaf að horfa á þennan 500 þúsund kall í okkar huga fyrir kosningar, sem við vildum þá setja í góð verkefni. Og það var algjörlega klárt í okkar röðum að við hefðum breytt því,“ segir Sigurþóra.
Þannig að þetta eru ekki bara minnihlutar í fýlukasti?
„Nei, alls ekki.“
Horfa má á fréttina í heild sinni í spilaranum hér að ofan.