Skoðun

Á­kall til al­þingis­manna

Jón Ingi Hákonarson skrifar

Staðreynd: Rekstur leikskóla er ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga. En það ætti að vera það. Það er undir Alþingi að lögfesta slíkt og tryggja fjármögnun fyrsta skólastigsins. Staðreynd númer tvö: Flestir flokkar á sveitarstjórnarstiginu eru sammála því að lögbinda eigi rekstur leikskóla en þingflokkar þessara sömu flokka hafa lítið ljáð máls á þessu innan veggja Alþingis. Staðreynd númer þrjú: Það mun lítið breytast fyrr en Alþingi tekur á málefnum barnafjölskyldna með heildstæðum hætti með því að lögfesta leikskóla sem lögbundið hlutverk sveitarfélaga, lengja fæðingarorlof og þar með auka sveigjanleika ungs fjölskyldufólks til þess að sameina starfsferil, fjölskyldulíf og því að koma sér inn á fasteignamarkaðinn.

Hlutverk hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, er að skapa samfélagslega umgjörð sem gerir fólki og fyrirtækjum kleift að blómstra. Það er staðreynd að mikið af ungu og vel menntuðu fólki kýs að stofna heimili og hefja starfsferil sinn erlendis þar sem þau þurfa ekki að velja á milli þess að stofna fjölskyldu og starfsferils. Á meðan ungt fólk þarf að velja á milli starfsferils og því að stofna fjölskyldu er íslenskt samfélag ekki samkeppnishæft um ungt og efnilegt fólk, það mun leita annað. Ein stærsta áskorun samfélagsins er hækkandi meðalaldur þjóðarinnar. Við þurfum að hlúa betur að ungum barnafjölskyldum, það getur ekki verið eingöngu á herðum sveitarfélaga, hér þarf miklu meiri samvinnu ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífsins.

Á meðan þingmenn segja pass í þessum málaflokki mun sama ófremdarástandið halda áfram. Ég vil bjóða þingheimi og þá sér í lagi ríkisstjórninni að vera hluti af lausninni. Flest sveitarfélög hafa ekki fjárhagslega burði til þess að koma til móts við þær auknu kröfur í þessum málaflokki án þess að fá frá ríkinu þar til bæra tekjustofna. Skuldastaða flestra sveitarfélaga er slæm og svigrúm til tekjuöflunar er lítið. Undanfarið hafa ríkisstjórnarflokkarnir verið í meirihluta í mörgum sveitarstjórnum þannig að hæg ættu heimatökin að vera til að ganga í verkin.

Við erum búin a masa og þrasa um þennan málflokk nógu lengi. Breytum þessu í vetur.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×