Þetta segir Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, í samtali við Morgunblaðið.
Áður en lögum var breytt í sumar var heimilt að fella niður virðisaukaskatt af rafbílum og vetnisrafbílum. Niðurfellingin var að hámarki 1.560 þúsund fyrir rafbíla og takmörkuð við 15 þúsund bifreiðar í ökutækjaskrá.
Með lagabreytingunni var hámarkið lækkað í 1.320 þúsund frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2023 en kvótinn hækkaður í 20 þúsund bifreiðar. Að sögn Egils voru um það bil 5.100 rafbílar eftir af nýja kvótanum í byrjun september.
Egill segist sjá fyrir sér að kvótinn klárist næsta haust, sem muni gera það að verkum að verð rafbíla hækkar sem nemur niðurfellingunni á virðisaukaskattinum. Þá mun verð einnig hækka vegna boðaðra hækkana á vörugjöldum og virðisaukaskatti, sem nemur 300 til 400 þúsund krónum til viðbótar.
Að sögn Egils hafa ódýrir rafbílir kostað um 5 milljónir króna. Hann gerir ráð fyrir að verðið fari í kjölfarið í um sjö milljónir.
Egill segir fyrirsjáanlegt að verðhækkanirnar muni hafa áhrif á kauphegðun og þannig muni aðgerðir stjórnvalda ganga þvert gegn þeirra eigin markmiðum um að helmingur bílaflota landsmanna verði rafbílar árið 2030.
„Orka er að baki 61% af losuninni sem Ísland ber ábyrgð á og hlutur vegasamgangna er 33%. Þannig að þetta er stærsti einstaki liðurinn í að ná markmiðunum. Hvað gerðu stjórnvöld fyrir nokkrum árum? Þau settu sér markmið um tiltekinn fjölda rafbíla í flotanum árið 2030, því skuldbindingin miðast við það ár. Til að loftslagsmarkmið næðust þyrfti annar hver bíll að vera rafbíll. Eins og staðan er í dag er langur vegur frá því að þetta náist og með þessum hækkunum er það enginn möguleiki,“ segir Egill.