Þetta segir Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu, í samtali við Vísi. Hann sótti ásamt fleiri fulltrúum Sorpu fund með bæjarráði Mosfellsbæjar í morgun þar sem farið var yfir stöðu mála er varða urðun í Álfsnesi.
Bæjarráð Mosfellsbæjar lýsir í bókun yfir miklum vonbrigðum með að ekki hafi tekist að finna viðunandi framtíðarlausn varðandi urðunarstað fyrir höfuðborgarsvæðið, sér í ljósi þess að bæjarfélagið hafi nú þegar í tvígang, fyrst 2018 og aftur 2020, fallist á áframhaldandi urðun í Álfsnesi í góðri trú um að unnið væri að lokun.

Jón Viggó tekur undir bókun bæjarfulltrúa og segist harma þá stöðu sem uppi sé, en í viðauka við eigendasamkomulag Sorpu frá í júlí 2020 um lokun urðunarstaðarins í Álfsnesi var kveðið á um að áætlun um aðgerðir sem lokuninni tengjast skulu liggja fyrir í árslok 2022 og að urðunarstaðnum yrði lokað fyrir lok árs 2023.
Jón Viggó segir ljóst að ekki verði hægt að loka urðunarstaðnum fyrr en búið sé að opna nýja. Því sé ljóst að ráðast þurfi í gerð nýs viðauka um áframhaldandi starfsemi í Álfsnesi, enda muni taka fjögur til fimm ár að opna urðunarstað eftir að búið er að fá land.
„Það hefur enn ekki tekist. Magnið hefur hrætt og viðræður við sveitarfélög hafa ekki gengið. Það virðist ekki vera mikill áhugi hjá þeim að leggja landsvæði undir urðunarstað, en samtalið heldur áfram,“ segir Jón Viggó og bætir við að viðræður hafi einnig átt sér stað milli Sorpu og sveitarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins.
Hann segir að Sorpa muni þó ná að hætta að urða lífrænum úrgangi fyrir lok árs 2023 svo að ekki ætti að berast sama lykt frá urðunarstaðnum í Álfsnesi líkt og verið hefur.
Urðunarstaðurinn í Álfsnesi er í landi Reykjavíkur, en ekki fjarri íbúabyggð í Mosfellsbæ.