Eiginkona hins látna er meðal þeirra þriggja sem sæta gæsluvarðhaldi grunuð um aðild að manndrápi á Ólafsfirði aðfaranótt sunnudags. Fjallað verður nánar um málið í kvöldfréttum.
Nemendur í Menntaskólanum við Hamrahlíð hafa mótmælt því í dag og í gær að þurfa að mæta gerendum í kynferðisbrotamálum á göngum skólans. Fyrrverandi nemandi segir lítið hafa breyst frá því að hann var í þessari sömu stöðu fyrir áratug. Við ræðum við nemendur í kvöldfréttum og fáum talskonu Stígamóta í settið. Hún segir nokkuð um að þau sem leiti til samtakanna ræði um erfiðar aðstæður í skólum eftir kynferðisbrot.
Þá kynnum við okkur þingmálaskrá vetrarins og verðum í beinni með þingmönnum stjórnarandstöðunnar, skoðum aðstöðu til heimsókna í fangelsunum á Hólmsheiði og Litla-Hrauni en fangelsismálastjóri segir þá síðarnefndu viðbjóðslega og ekki börnum bjóðandi. Auk þess kíkjum við í heimsókn í tónlistarskólann á Ísafirði þar sem Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson halda um stjórnartaumana.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.