Þegar maður sér Strætó á ferð um Reykjavík eru um helmingslíkur á að vagninn sé ekki í eigu borgarinnar - og að vagnstjórinn starfi hjá einkafyrirtæki. Af rúmlega 150 vögnum í þjónustu Strætó er um helmingur í eigu einkafyrirtækja eins og Hópbíla hf. eða Kynnisferða.

Hugmyndir eru uppi um aukna útvistun, sem myndi auka hlutfall þeirra vagna sem eru í eigu og rekstri einkafyrirtækja fyrir Strætó. Þessar hugmyndir koma til dæmis frá sjálfum stjórnarformanni Strætó, Magnúsi Erni Guðmundssyni, sem segir blasa við að bjóða í auknum mæli út rekstur Strætó. Útvistun sé augljóslega skynsamlegri kostur en að félagið annist aksturinn sjálft. Á svipuðum nótum talar Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, sem segir að hagræðing felist í að úthýsa rekstrinum.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó bs, segir að honum lítist ljómandi vel á þessar hugmyndir. „Þetta er umræða sem hefur átt sér stað mjög lengi inni í Strætó og á meðal pólitíkusa í sveitarfélaginu. Vonandi fer að koma einhver endanleg ákvörðun í þetta þannig að hægt sé að vinna í rétta átt,“ segir Jóhannes.
Mynduð þið vilja bjóða allan reksturinn út? „Já, í lokin sjáum við fyrir okkur að allur reksturinn sé boðinn út,“ segir Jóhannes, sem segir þó ekki nákvæmt að kalla það einkavæðingu. „Nei, ég myndi ekki segja það. Þetta er bara að bjóða út á samkeppnismarkaði. Samkeppni um verðin. Þannig teljum við okkur geta fengið hagstæðari verð.“ Skipulag og rekstur kerfisins væri enn alfarið í höndum Strætó bs. þótt einkafyrirtæki ættu vagnana og réðu bílstjórana.
Strætó á ekki sjö dagana sæla. Nýtt app hefur farið brösulega af stað, Næturstrætó var lagður af við lítinn fögnuð notenda, óánægju hefur gætt með þjónustuna almennt og rekstrarerfiðleikarnir hafa aldrei verið meiri. Jóhannes kveðst sjálfur ekki hafa séð það svartara en bendir á að aukin útboð séu ekki lausn á bráðavandanum sem steðji að núna.
„Að bjóða út er ekki kannski lausn sem reddar okkur núna en eins og ég sagði áðan hefur í útboðunum komið lægri verð en við höfum getað gert þetta sjálf. Þannig að til framtíðar getur þetta þýtt lægri kostnað fyrir Strætó,“ segir Jóhannes.