Aðspurður hvernig dagurinn hafi gengið segir Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari daginn hafa gengið vel.
„Það hafa verið mjög stífir fundir í talsvert langan tíma, þannig að ég er aðeins að reyna á þrautseigju fólks en samningamennirnir standa sig frábærlega og þetta er búið að vera góður dagur.“
Þegar fréttamaður ræddi við Aðalstein í kvöldfréttum sagðist hann þurfa að hleypa fólki heim í bráð.
„Ég geri ráð fyrir því að við sitjum við eitthvað áfram í einn eða tvo klukkutíma í viðbót eða svo, en svo þarf ég að fara að gefa fólki hvíld,“ sagði Aðalsteinn.
Aðspurður hvort reyni á þolinmæði deiluaðila nú segir Aðalsteinn hana ef til vill hafa minnkað.
„En þegar þolinmæðin þrýtur þá tekur þrautseigjan við og við sitjum áfram og gerum okkar allra besta. Það eru allir meðvitaðir um þá ábyrgð sem á þeim hvílir. Það eru allir að leggja sig fram og meira get ég ekki beðið um,“ sagði Aðalsteinn að lokum.
Viðtalið við Aðalstein má sjá hér að ofan og hefst það á 01:15.