Samkvæmt Reuters mátti sjá stuðningsfólk Bolsonaro klætt brasilískum fótboltatreyjum áreita lögreglu á staðnum. Í látunum hafi verið kveikt í nærliggjandi bifreiðum og hafi lögregla meðal annarra úrræða notast við táragas til að hafa hemil á mótmælendum.
Það sem sagt er hafa ýtt óeirðunum af stað er handtaka stuðningsmanns Bolsonaro á mánudag sem sakaður er um að hafa skipulagt „ofbeldisfullar andlýðræðislegar aðgerðir.“
Bolsonaro hefur enn ekki viðurkennt sigur Lula beint út. Þó virðast sumir stuðningsmenn Bolsonaro halda því fram að Lula hafi „stolið“ kosningunni og sigur hans sé ólögmætur.
Stuðningsmenn hans hafa einnig kallað eftir því að herafli sé beitt til þess að koma megi í veg fyrir að Lula taki við en sá nýkjörni á að taka við embætti þann 1. janúar næstkomandi.