McCarthy hefur lengi viljað verða þingforseti og hefur aldrei farið leynt með það. Hann reyndi það síðast árið 2015 en þá mistókst honum að tryggja sér embættið og það endaði í höndum Paul Ryans.
Repúblikanar tryggðu sér mjög nauman meirihluta í fulltrúadeildinni en hún skiptist 222-212 milli flokka. McCarthy má því ekki við því að fleiri en fjórir þingmenn Repúblikanaflokksins neiti að styðja hann. Eins og staðan er núna lítur út fyrir að það séu töluvert fleiri þingmenn en það sem vilja ekki að hann verði forseti þingsins.
Þingmenn Repúblikanaflokksins sem þykja langt til hægri og öfgakenndir eru mótfallnir McCarthy og aðrir hófsamir Repúblikanar eru einnig sagðir óttast það að öfgakenndir þingmenn gætu notað sér veika stöðu McCarthy til að þvinga hann til að framfylgja vilja þeirra.
Sjá einnig: Mætir mótspyrnu innan eigin flokks
Samkvæmt frétt Politico ræddi McCarthy við þingflokkinn í gær og hét hann því að verða við kröfum þingmanna um að breytingar yrðu gerðar á reglum svo auðveldara yrði að víkja honum úr embætti. Breytingarnar yrðu á þá leið að einungis fimm þingmenn þyrftu að krefjast atkvæðagreiðslu um að víkja þingforseta úr embætti, í stað helmings þingflokksins.
Í kjölfar þeirrar yfirlýsingar birtu níu íhaldssamir þingmenn flokksins yfirlýsingu um að McCarthy hefði ekki stuðning þeirra. Það er til viðbótar við fimm aðra þingmenn flokksins sem hafa lýst því yfir að þeir styðji McCarthy ekki.
Sjá einnig: Slæmt gengi kemur niður á draumum McCarthy
Einn þingmaður flokksins sem ræddi við blaðamenn Politico sagði þar að auki að einhverjir óákveðnir þingmenn ætluðu sér ekki að styðja hann.
„Vandamálið er að fólk treystir Kevin McCarthy ekki og nokkrir ætla ekki að veita honum atkvæði,“ sagði þingmaðurinn sem ræddi við miðilinn gegn nafnleynd.
Þingmaðurinn Bob Good sagði í viðtali í dag að hann myndi aldrei veita McCarthy atkvæði sitt. Aðspurður um annan mögulegan þingforseta, sagði Good að það kæmi í ljós á morgun.
Rep. Bob Good says unequivocally on Fox & Friends that he won't vote for Kevin McCarthy for speaker, then says of an alternate candidate, "you'll see that name tomorrow on the second ballot" pic.twitter.com/I3ollpJw8A
— Aaron Rupar (@atrupar) January 2, 2023
Bandaríski miðillinn Punchbowl News, sem sérhæfir sig í málefnum þingsins, segir að útlit sé fyrir að allavega fimm til tíu þingmenn ætli ekki að styðja McCarthy. Ekki sé þó ljóst hvort allir muni standa við það, því erfitt sé fyrir þingmenn að fara svo opinberlega gegn leiðtoga þingflokksins og að mikil óreiða gæti myndast á þinginu.