Þetta kemur fram í færslu rannsóknarstofu í eldfjallafræði og náttúruvá í Háskóla Íslands sem birtist á Facebook í gærkvöldi þar sem sýnt er í nýja mynd frá Geimvísindastofnun Evrópu af svæðinu.
Myndir hafa sýnt að ísinn á Öskjuvatni hafi hörfað að miklu leyti þrátt fyrir að febrúar sé aðeins rétt hálfnaður. Í venjulegu árferði gerist það vanalega í júní eða júlí, en síðast hopaði ísinn sérstaklega snemma árið 2012 en þá gerðist það í mars.
Í færslunni nú segir að bráðnunin sé hröð, en hún hafi hægt á sér eftir að ísinn byrjaði að brotna upp. Hún hefði átt að verða hraðari ef veður og öldugangur væri að stjórna bráð.
„Annað sem er mjög áhugavert á þeirri mynd sem kom í kvöld eru snjólausu svæðin austan og sunnan við Bátshraun. Þarna eru komin stór svæði án snævar og bera ummerki um að landið sé farið að hitna. Sjáum hvað setur,“ segir í færslunni sem Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingur ritar undir.
Áður hafa starfsmenn Veðurstofunnar sagt frá því að land hafi risið í Öskju frá því í ágúst 2021, líklega vegna kvikuinnskots sem áætlað sé að sé á um tveggja til þriggja kílómetra dýpi. Engin gögn eða mælingar tengi hins vegar þær jarðhræringar við bráðnun íssins á vatninu. Þá hafi engar teljandi breytingar orðið á skjálftavirkni í Ösku undanfarnar vikur.