Stúlkan sem fannst látin heitir Luise en foreldrar hennar höfðu fyrst samband við lögregluna um klukkan 19:45 á laugardaginn. Luise hafði lagt af stað heim frá vini sínum fyrr um daginn en ekkert hafði spurst til hennar í nokkurn tíma.
Ákveðið var að hefja leit að Luise en leitin bar ekki árangur um kvöldið á laugardeginum. Daginn eftir fannst lík hennar í grennd við gömul göng. Krufning leiddi í ljós að hún hafði verið stungin nokkrum sinnum með hníf og að hún hafi látist í kjölfar þess. Engin merki voru um að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi.

Játuðu morðið en verða ekki sóttar til saka
Þýskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að tvær stelpur á svipuðum aldri og Luise væru grunaðar um morðið. Lögreglan staðfesti það svo á blaðamannafundi að tólf og þrettán ára stelpurnar væru grunaðar. Samkvæmt Bild játuðu stelpurnar morðið í yfirheyrslu og sönnunargögn styðja við þeirra frásögn.
Þar sem sakhæfisaldur er fjórtán ára í Þýskalandi verða stelpurnar tvær ekki sóttar til saka. Viðeigandi yfirvöld munu taka við þeim og sjá um næstu skref.
Aðstoðarlögreglustjóri orðlaus
Það sem vekur athygli í málinu er að lík Luise fannst ekki á leið hennar heim til sín heldur í um tveggja kílómetra fjarlægð í hina áttina frá húsi vinar hennar. Lögreglan vildi ekki veita upplýsingar um ástæðuna fyrir þessu á blaðamannafundinum.
Þá kom fram á fundinum að lögreglan væri ekki ennþá búin að finna morðvopnið.
Jürgen Süs, aðstoðarlögreglustjóri í Koblenz, segir að þetta mál hafi komið honum í opna skjöldu þrátt fyrir að hann hafi starfað í lögreglunni í rúma fjóra áratugi. Hann sé orðlaus.
Sem stendur sé lögreglan ekki að leita að neinum öðrum í tengslum við málið en að sé leitað sönnunargagna.