Búningurinn sem sýna á í dag er frumgerð af búningum sem nota á í tunglgöngur við suðurpól tunglsins.
Forsvarsmenn NASA völdu Axiom Space og Collins Aerospace til að þróa nýju geimbúningana í fyrra. Axiom fékk svo að halda þeirri þróun áfram en vonir eru bundnar við að hægt verði að prófa geimbúningana fyrst í tilraunageimgöngu frá Alþjóðlegu geimstöðinni árið 2025.
Sjá einnig: Opinberuðu hverjir þróa geimbúninga framtíðarinnar
Kynningin á að hefjast klukkan hálf þrjú að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með henni í spilaranum hér að neðan.
Fyrstu geimfararnir eiga að lenda aftur á tunglinu í þriðja skoti Artemis-áætlunarinnar. Sú áætlun snýr að því að senda menn aftur til tunglsins árið 2024 og koma þar upp bækistöð sem nota á sem stökkpall lengra út í sólkerfið.
Stefnt er á að skjóta Artemis 3 af stað árið 2025. Fyrsta geimskot Artemisáætlunarinnar var Artemis 1 sem skotið var á loft í fyrra. Þá var Orion geimfar hlaðið skynjurum sent til tunglsins þar sem það var í nærri því mánuð. Geimfarið bar einnig gervihnetti sem nota á til að skipuleggja Artemis 3.
Artemis 3 verður fyrsta mannaða geimskotið til tunglsins frá Appollo 17 árið 1972. Fyrst þarf þó að skjóta Artemis 2 á loft.
Artemis 2 gengur út á senda annað Orion geimfar í svipaðan leiðangur en að þessu sinni eiga geimfarar að vera þar um borð. Til stendur að skjóta því geimfari á loft nóvember á næsta ári.

Þróun geimbúninga fyrir Artemis-áætlunina hefur tafist verulega, eins og annað sem tengist áætluninni, en innri endurskoðandi NASA birti árið 2021 skýrslu þar sem fram kom að ómögulegt yrði að lenda aftur á tunglinu árið 2024 eins og upprunalega stóð til og var það vegna geimbúninganna.
Sjá einnig: Ekki hægt að lenda á tunglinu 2024 vegna tafa við þróun geimbúninga
Þeir búningar sem eru nú notaðir við geimgöngur í geimstöðinni voru hannaðir fyrir nærri því fimmtíu árum síðan. Árið 2019 kynnti NASA svo nýjustu búningana sem nota á til ferða til tunglsins og lengra út í sólkerfið.