Sólin er nákvæmlega yfir miðbaug himins á vorjafndægrum. Vorjafndægur og haustjafndægur eru einu dagar ársins sem sólin rís í austri og sest í vestri. Á sama tíma eru haustjafndægur á suðurhveli.
Eins og rakið er í grein á Vísindavefnum er þó ekki alveg nákvæmt að segja að dagur og nótt séu jafnlöng á jafndægrum. Dagsbirtan varir örlítið lengur en myrkrið, annars vegar vegna þess hvernig sólin er skilgreind í almanökum og hins vegar vegna áhrifa lofthjúps jarðar á sólarljósið.
Sólin er þannig skilgreind sem punktur í almanökum þó að hún sé í raun skífa. Sólarupprás og sólsetur miðast þannig við hvenær punktur í miðju sólarskífunnar kemur upp yfir sjóndeildarhringinn þrátt fyrir að byrjað sé að birta áður.
Lofthjúpurinn sveigir einnig ljós frá sólinni þannig að hún birtist í raun á himni áður en hún er komin yfir sjóndeildarhringinn. Þannig flýtir ljósbrot lofthjúpsins ekki aðeins sólarupprás um nokkrar mínútur heldur seinkar sólsetri einnig.
Eftir vorjafndægur heldur sólin áfram að hækka á lofti allt fram á sumarsólstöður. Þær verða klukkan 14:47 miðvikudaginn 21. júní í ár. Eftir þær byrjar daginn að stytta aftur. Haustjafndægur í ár verða klukkan 6:49 að morgni 23. september og verður nóttin þá aftur orðin deginum lengri.