Átökin brutust út þann fyrir rúmum tveimur vikum milli stríðandi fylkinga stjórnarhers Súdan og uppreisnasveita RSF, meðal annars í höfuðborginni Khartoum. Tilraunir til að koma á vopnahléi hafa ekki borið tilætlaðan árangur en stríðandi fylkingar hafa þó gefið út að slíkt muni gilda næstu þrjá daga, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.
Á fimmta hundruð almennra borgara hafa látist síðustu tvær vikur og þúsundir særst en tveir þriðju spítala á svæðum þar sem átökin eiga sér stað eru ekki í notkun vegna skorts. Alþjóðadeild Rauða krossins náði í dag að flytja sjúkragögn til Súdan með vél frá Jórdaníu og eru þau tilbúin til að flytja meira.
„Frá 14. apríl hafa sjúkragögn ekki borist til landsins en brýn þörf er á slíku. Sjúkragögn berast vonandi fljótt frá Port Súdan og komast til sjúkrahúsanna sem eru í mestri þörf á þeim. Það krefst í raun vopnahlés sem báðir aðilar þurfa að virða,“ segir Patrick Youssef, svæðisstjóri alþjóðadeildar Rauða krossins í Súdan.
Aðstæðurnar hættulegar hjálparstarfsfólki
Enn sem komið er hefur ekki tekist að koma á fót öflugu mannúðarstarfi á svæðinu.
„Hjálparstarfsfólk býr við loftárásir, stríðsástand og óöryggi við störf sín við að afla birgða og hlúa að fólki. Hjálparstarfsfólk sætir árásum og sumir hafa látið lífið. Aðstæðurnar eru afskaplega hættulegar,“ segir Jill Lawler, yfirmaður svæðisaðgerða UNICEF í Súdan.
Líður eins og hann sé svikari fyrir að flýja
Tugir þúsunda hafa flúið til nágrannalanda en margir eru enn fastir á átakasvæðum. Ýmsar þjóðir hafa reynt að flytja ríkisborgara frá landinu en margir bíða enn.
„Mér finnst ég vera svikari við land mitt þegar ég yfirgef það. Ég skil fólk eftir í sársauka meðan ég upplifi gleði. Mér líður stundum eins og svikara. Ég veit ekki af hverju það er,“ segir Abdullah Ahmed, ungur súdanskur og bandarískur ríkisborgari