Við greinum einnig frá aðgerðaáætlun félagsmálaráðherra og bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ, sem miða að því að draga úr fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd í bænum og bæta þjónustuna við þá sem eru þar fyrir. Stefnt er að uppsetningu einingahúsa fyrir allt að þúsund manns í öðrum sveitarfélögum.
Margverðlaunaður ísraelskur blaðamaður segir að Ísraelsmenn muni ekki láta af hernaði sínum og aðskilnaðarstefnu gagnvart Palestínumönnum fyrr en alþjóðasamfélagið refsi þeim. Núverandi ríkisstjórn landsins væri versta fasista- og öfgatrúarstjórn frá stofnun Ísraelsríkis.
Við sýnum myndir frá miklum óeirðum í úthverfum Parísar í nótt eftir að lögreglumaður skaut sautján ára ungling til bana í bíl hans þegar hann var stöðvaður við umferðareftirlit. Ríkissaksóknari Frakklands hefur ákært lögreglumanninn fyrir manndráp að yfirlögðu ráði.
Og við verðum í Hafnarfirði þar sem bæjar- og tónlistarhátíðin „Í Hjarta Hafnarfjarðar“ hefst með pompi og prakt í kvöld.
Þetta og fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar og Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.