Mótið verður sett í 39 sinn í kvöld og fer fram á Kópavogsvelli um helgina þar sem tæplega þrjú þúsund stelpur eru skráðar til leiks. Jóhann Þór Jónsson, formaður barna- og unglingaráðs Breiðabliks segir gesti eiga von á mikilli stemningu og skemmtun.
„Heitir þetta ekki bara að skammast sín?
Ákveðin nýjung verður á mótinu í ár en skipuleggjendur ætla að leggja áherslu á framkomu aðstandenda á hliðarlínunni með svokölluðu bleiku spjaldi.
„Það skiptir ofboðslega miklu máli að foreldrar sýni þessum krökkum sem eru að taka sín fyrstu skref virðingu og stuðning og séu ekki með nein frammíköll eða leiðindi. Þess vegna höfum við farið þá leið í ár að finna upp það sem kallast bleika spjaldið. Þannig ef einhver missir sig á hliðarlínunni þá er dómarinn með tæki og tól til að beita viðkomandi bleika spjaldinu og á því eru ákveðnar áminningar og skilaboð um það hvernig við viljum að fólk að hegði sér. Við vonum að við þurfum ekki að veita nein bleik spjöld í ár en þetta er áherslupunkturinn í ár sem við leggjum upp með.“
Eru einhver viðurlög, eru æstir foreldrar reknir burt?
„Nei, heitir þetta ekki bara að skammast sín?“
Ætla að slá áhorfendamet
Setningarathöfn hefst sem fyrr segir í kvöld og mun skólahljómsveit Kópavogs mun leiða skrúðgöngu inn á Kópavogsvöll.
„Og í stúkunni hjá okkur í ár verða allar landsliðsstelpurnar sem er frábært. Þær ætla að gefa sér tíma frá æfingu til að koma til okkar og hvetja ungu iðkendurna til dáða. Á morgun er einmitt landsleikur Íslands og Finnlands á Laugardalsvelli. Síminn, KSÍ og Breiðablik hafa ákveðið að bjóða öllum iðkendum á Símamótinu á landsleikinn og við ætlum að slá áhorfendamet, ef opinbert áhorfendamet verður ekki slegið þá allavegana áhorfendamet sextán ára og yngri.“