Vy-þrif urðu vís að geymslu fleiri tonna af matvælum í húsnæði við Sóltún í Reykjavík fyrir tæpum tveimur vikum. Davíð er einnig eigandi phoVíetnam veitingastaðakeðjunnar sem rekur nokkra veitingastaði í Reykjavík.
Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Davíð undanfarna daga en án árangurs. Hann sendi fréttastofu eftirfarandi orðsendingu á fjórða tímanum.
Lýsa góðu sambandi við matvælaeftirlitið
„Matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur mætti í geymsluhúsnæði í kjallara að Sóltúni 20 á dögunum til að taka út aðstæður og í kjölfarið var miklu magni matar fargað. Húsnæðið sem um ræðir er leigt af þrifafyrirtækinu Vy-þrif.
Vy-þrif hafa verið í góðu sambandi við matvælaeftirlit heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og munu halda því áfram. Rannsókn matvælaeftirlits heilbrigðisteftirlits Reykjavíkur stendur enn yfir og munu forsvarsmenn Vy-þrifa ekki tjá sig um málið á meðan á rannsókn stendur.“
Gunnar Hersveinn Sigursteinsson, upplýsingafulltrúi hjá Reykjavíkurborg, segir í tölvupósti til fréttastofu að ekki hafi verið starfsleyfi fyrir geymslu matvæla. Húsnæðið hafi ekki verið meindýrahelt og aðstæður óheilnæmar. Samkvæmt heimildum fréttastofu var mikið magn rottuskíts á gólfinu þegar starfsmenn eftirlitsins bar að garði.
Engar kvartanir borist um veikindi
Rannsókn heilbrigðiseftirlitsins beinist meðal annars að uppruna matvælanna og hvort að vera kunni að þeim hafi verið dreift til matvælafyrirtækja. Ekki hafi verið hægt að staðfesta í eftirliti að svo hafi verið. Þá hafi ekki borist neinar kvartanir um veikindi sem hægt sé að tengja við þessi matvæli.
„Rannsókn heilbrigðiseftirlitsins beinist ekki að öðrum hlutum í húsnæðinu en matvælum. Á þessu stigi máls er ekki hægt að segja til um hvenær rannsókn muni ljúka. Þetta mál er enn í vinnslu hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og meðan svo er getur heilbrigðiseftirlitið ekki gefið frekari upplýsingar að svo stöddu né tjáð sig um atriði sem hafa komið fram í fjölmiðlum nýlega.“