Fylgi Framsóknar mælist rétt tæp 10 prósent og fylgi Vinstri grænna rúmlega fimm og hálft prósent. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samanlagt með 32,8 prósent fylgi, sex og hálfu prósentustigi meira en Samfylkingin.
Viðreisn mælist með rúm tólf prósent, Flokkur fólksins tæp sjö, Sósíalistar með rúm fjögur prósent, Miðflokkurinn rúm níu prósent og Píratar átta prósent.
Þá var einnig spurt hversu vel eða illa ríkisstjórnarflokkunum hefði tekist að koma sínum málefnum til framkvæmda í ríkisstjórnarsamstarfinu.
57 prósentum svarenda þykir VG hafa tekist illa eða alls ekki að koma málefnum sínum til framkvæmda, en 13 prósent telja það hafa tekist vel hjá flokknum. Rúmum 35 prósentum þótti þá Framsóknarflokknum hafa tekist illa til við að koma málefnum sínum á framfæri, en tæp 17 prósent töldu það hafa tekist vel hjá flokknum.

Yfir 30 prósent sögðu Sjálfstæðisflokknum hafa tekist vel til, en tæp 38 prósent sögðu hið gagnstæða, að flokknum hefði illa eða alls ekki tekist að koma málefnum sínum til framkvæmda í samstarfinu.
Eins var spurt hvaða ráðherrar hefðu staðið sig best og verst á yfirstandandi kjörtímabili. Sá ráðherra sem svarendur sem tóku afstöðu töldu hafa staðið sig best var Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra með 9,7 prósent.
Næst á eftir kom Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra, með 7,2 prósent. Tæp 34 prósent töldu þó að enginn einn ráðherra hefði staðið sig best. Á hinum enda skalans voru 45,5 prósent sem töldu Bjarna Benediktsson hafa staðið sig verst, en 14,6 prósent töldu Svandísi hafa staðið sig verst.