Stjórnvöld í Suður-Afríku hafa óskað eftir því að málið fái hraða meðferð hjá dómstólnum, til að koma í veg fyrir „frekari, alvarlegan og óafturkræfan skaða á réttindum Palestínumanna samkvæmt sáttmálanum um þjóðarmorð, sem enn er brotið gegn án afleiðinga“.
Heilbrigðisyfirvöld á Gasa, sem eru undir stjórn Hamas, segja 23 þúsund Palestínumenn hafa látist í árásum Ísraelshers, sem hófust í kjölfar árása Hamas á byggðir Ísraelsmanna 7. október síðastliðinn. Palestínu-flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna áætlar að 85 prósent íbúa Gasa séu á vergangi.
Þá hafa tugþúsundir bygginga verð eyðilagðar.
Í kvörtun Suður-Afríku segir að aðgerðir Ísraelsmanna séu í eðli sínu þjóðarmorð, þar sem þeim sé ætlað að stuðla að tortímingu stórst hluta palestínsku þjóðarinnar. Meðferð mála er varða þjóðarmorð tekur yfirleitt mjög langan tíma en stjórnvöld í Suður-Afríku hafa biðlað til Alþjóðadómstólsins um að grípa tafarlaust til aðgerða og fyrirskipa Ísrael að láta af árásum sínum á Gasa.
Stjórnvöld í Ísrael hafa brugðist harkalega við kvörtun Suður-Afríku og segjast hafa gripið til aðgerða í sjálfsvörn, til að vernda eigin borgara. Ráðamenn í Bandaríkjunum hafa tekið undir með Ísrael og segja ásakanir um þjóðarmorð ekki eiga rétt á sér.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, hefur sent frá sér myndskeið þar sem hann segir Ísrael vera í stríði við Hamas, ekki íbúa Palestínu. Stjórnvöld í Ísrael hafi hvorki í hyggju að hernema Gasa né reka íbúa svæðisins á brott.
Greint var frá því að Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtogi breska Verkamannaflokksins, verði í sendinefnd Suður-Afríku við dómstólinn. Corbyn er ötull stuðningsmaður Palestínu en hefur ítrekað verið sakaður um gyðingahatur.