Þetta staðfestir Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við Vísi.
Hún segir að gosið hafi komið upp rétt sunnan við Hagafell, norðan við varnargarðana við Grindavík. Hraun renni nú í suðurátt í átt að varnargörðunum og bænum.
Eldgosið hafi hafist af nokkrum krafti en of snemmt sé að segja nákvæmlega til um stærð þess. Þá segir hún að sprungan sé enn að opnast og staðsetning gossins geti því breyst. Staðan sé stöðugt vöktuð.
„Það eru góðar fréttir að þetta sé norðan varnargarða.“
Staðsetningin óljós
Benedikt Gunnar Ófeigsson, segir í samtali við Vísi að nákvæm staðsetning eldgossins liggi ekki fyrir að svo stöddu. Þyrla Landhelgisgæslunnar sé í loftinu með vísindamenn Veðurstofunnar um borð.

Hann segir gosið líklegast vera við Sundhnúksgíg, sem er norðan við Grindavík og á vatnaskilum. Ekki liggi fyrir að svo stöddu í hvaða átt hraunið rennur en að miklar líkur séu á að það muni renna, allavega að hluta til, í suður í átt að Grindavíkurbæ.
Þá segir hann að gossprungan sé enn að stækka en að svo virðist sem kraftur gossins sé töluvert minni en þegar gaus þann 18. desember í fyrra. Þá var hraunrennsli í upphafi allt að 300 rúmmetrar á sekúndu en Benedikt segir benda til þess að nú sé það nær hundrað rúmmetrum á sekúndu. Það verði þó metið betur í skoðunarfluginu.
Fréttin var uppfærð klukkan 08:43, eftir að rætt var við Benedikt.