Samkvæmt upplýsingum úr sextán umferðarteljurum á þjóðvegi eitt hefur umferð um Suðurlandsveg aukist langmest upp á síðkastið enda mikill fjöldi ferðamanna, sem sækir Suðurland heim og ekur þá Suðurlandsveginn á sinni ferð.
Lögreglan á Suðurlandi hefur sett sér það markmið að vera með mjög gott eftirlit á vegunum í sumar. Grímur Hergeirsson er lögreglustjóri á Suðurlandi.
„Já, já, við reynum að skipuleggja okkur vinnu þannig að við getum sinnt okkar hlutverki í þessu umhverfi, sem við erum í dag, bæði á Suðurlandi og víðar. Það er gríðarleg aukning á umferð og fjölgun ferðamanna og það er í mörg horn að lýta.Umferðarteljarar Vegagerðarinnar sýna mikla aukningu á umferð um Suðurlandsveg núna síðustu mánuði þannig að við þurfum að vera á tánum,“ segir Grímur.

Og Grímur lofar góðu umferðareftirliti lögreglu í sumar.
„Já, það verður mjög öflugt eftirlit hjá okkur á Suðurlandi í allt sumar, mjög sýnilegt og virkt umferðareftirlit, sem víðast.“
