Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, í samtali við Vísi innt eftir viðbrögðum við tilkynningu umboðsmanns Alþingis sem fjallað var um í gær. Umboðsmaður tók fram í tilkynningu sinni að svör frá ráðuneytinu bárust seint og illa og vísaði til tveggja mála þar sem voru alvarlega tafir á afgreiðslu.
Lilja tekur gagnrýnina til sín
Eitt af málunum sem umboðsmaður nefndi var stjórnsýslukæra sem ráðuneytinu hafi borist fyrir þremur árum síðan en á enn eftir að afgreiða. Lilja segir að ráðuneytið verði að bregðast við og að hún sé hjartanlega sammála ábendingum umboðsmanns Alþingis.
Spurð hvaða skilaboð Lilja hefur til þeirra sem hafa beðið jafnvel árum saman eftir úrlausnum frá ráðuneytinu segir Lilja:
„Við verðum að gera betur. Ég tek þetta að sjálfsögðu mjög alvarlega. við settum af stað áætlun sem raungerðist ekki“. Lilja bætir við að mikið álag hafi verið á ráðuneytinu undanfarið og nefnir sem dæmi löggjöf sem ráðuneytið setti varðandi heimagistingu til að auka framboð á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu.
„Það skýrir þetta að einhverju leyti en ekki nægilega vel. Maður tekur þetta til sín,“ segir Lilja.