Hin 33 ára gamla Sara Björk spilaði með Breiðabliki hér á landi áður en hún gekk í raðir Rosengård í Svíþjóð. Þaðan fór hún til Wolfsburg í Þýskalandi og svo til stórveldisins Lyon í Frakklandi árið 2020.
Tveimur árum síðar gekk hún í raðir Juventus á tveggja ára samningi sem rennur út í sumar. Það er óvíst hvað tekur við en Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur RÚV á EM 2024 og stjórnandi hlaðvarpsins Dr. Football, segir að Sara Björk gæti nokkuð óvænt verið á leið til Sádi-Arabíu.
„Er búinn að heyra úr mörgum áttum að Sara Björk gæti verið að fara til Sádi,“ sagði Hjörvar í síðasta þætti Dr. Football.
17.júníhttps://t.co/VD2iDBBLLw
— Dr. Football Podcast (@drfootballpod) June 17, 2024
Þar í landi hefur karlaldeildin verið að sanka að sér stórstjörnum í misgóðu standi undanfarin misseri og nú virðist sem það eigi að setja fjármagn í kvennadeildina.